top of page

Grace lét drauminn rætast og Joe Biden sá afraksturinn


Grace Achieng Clothing Designer
Grace Achieng fatahönnuður

Mér brá þegar ég leit nývöknuð á símann minn og sá utanríkisráðherra Íslands, Þórdísi Kolbrúnu, í samfestingnum frá Gracelandic þegar hún hitti forseta Bandaríkjanna, Joe Biden og forsetafrúna dr. Jill Biden, á ferð sinni til New York,“ segir fatahönnuðurinn Grace Achieng.


Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir klæddist íslenskri hönnun í ferð sinni til New York á dögunum, nánar tiltekið samfestingi sem Grace hannar undir vörumerkinu sínu Gracelandic.


„Það er mikill heiður fyrir mig að hún skuli hafa valið hönnunina mína fyrir svona stóran viðburð,“ segir Grace, en Þórdís hefur áður klæðst samfestingnum á ráðstefnu í Slóveníu með utanríkisráðherrum annarra þjóða.


„Þetta minnti mig á þegar ég var lítil og sat fyrir utan heimili mitt í Kisumu í Kenýa og horfði á konur og börn ganga framhjá í fínum fötum sem móðir mín hafði ekki efni á. Ég lék mér að því að hugsa hverjar af þessum flíkum ég vildi eignast. Ég ákvað að þegar ég yrði eldri myndi ég eignast fín föt. Þessi draumur minn varð svo skýrari þegar ég fór í framhaldsskóla, þar sem ég sparaði peninginn sem ég fékk fyrir mat og í rútuna til að kaupa notuð föt á flóamarkaði og selja svo skólafélögum mínum í kvennaskólanum í Kisumu. Strax þá vissi ég að ástríða mín væri að láta konur líta vel út og líða vel,“ segir Grace.


Þórdís er ekki fyrsta konan til að klæðast fatnaði hönnuðum af Grace, en Eliza Reid, forsetafrú Íslands, klæddist fatnaði frá merkinu þegar forsetahjónin tóku á móti Friðriki krónprins af Danmörku á Bessastöðum og þá hefur breska Vogue tímaritið fjallað um merkið.


Grace segir það hafa tekið á að láta drauminn rætast.


„Tíu árum eftir að ég flutti til Íslands safnaði ég kjarki til að stofna Gracelandic sem vörumerki í kventísku, sem framleiðir fatnað á sjálfbæran og siðferðislega réttan hátt með tilliti til náttúrunnar. Ég trúi því að mann geti dreymt stóra drauma og með hugrekki geti þeir orðið að veruleika. Ég vona að saga mín hvetji fleiri til að elta sína drauma,“ segir Grace.

„Mitt markmið er að Gracelandic gefi af sér til framtíðar og stefni ég á að stofna munaðarleysingjaheimili í Kenýa og styrkja góðgerðarsamtök sem berjast fyrir hagsmunum barna og efla konur.“


Rithöfundur: Oddur Ævar Gunnarsson

Dagsetning: Laugardagur 1. október 2022

Kl. 05.00

 
 
 

Comments


bottom of page