top of page

GRACELANDIC HLÝTUR FKA HVATNINGARVIÐURKENNING 2023


Gracelandic er einstakt kvenfatamerki sem byggir á sjálfbærum lífsstíl og einfaldleika. Eigandi merkisins, Grace Achieng, hlýtur hvatningarviðurkenningu FKA og segir þau einstakan heiður.

Vörulína Gracelandic byggir á einfaldleika og praktík og gerir konum kleift að líða vel, líta vel út og að taka samfélagslega ábyrgð. Línan er hönnuð þannig að hægt sé að raða fatnaði og fylgihlutum saman eftir eigin höfði, smekk og tilefni. Hún byggir undir persónulegan stíl í stað þess að ýta undir þörfina fyrir að eiga fullan skáp af fötum fyrir ólík tilefni,“ segir Grace Achieng, eigandi og framkvæmdastjóri Gracelandic netverslunar. Grace er fædd og uppalin í Kenía og lagði stund á markaðsfræði við háskóla í Mombasa áður en hún flutti til Íslands árið 2010.


Draumar geta ræst

„Það er heiður að hljóta hvatningarviðurkenningu FKA. Hún sýnir að allt sem ég hef lagt á mig hefur verið þess virði. Ef kona af afrískum uppruna, með takmarkaða íslenskukunnáttu, getur látið drauminn rætast á Íslandi eru ungum stelpum og konum í þessu samfélagi allir vegir færir.

Þetta snertir mig dýpra en ætla má. Ég minnist þess þegar ég sat sem lítil stelpa fyrir framan húsið mitt í Kisumu í Kenía og fylgdist með fólki ganga fram hjá, í fínum fötum sem móðir mín hafði ekki efni á. Mig dreymdi um svona fín föt þegar ég yrði eldri. Í kvennaskólanum í Kisumu sparaði ég peninginn sem ég fékk fyrir mat og í rútuna, keypti notuð föt á flóamarkaði og seldi skólafélögunum. Ég vissi þarna að ástríða mín væri að láta konur líta vel út og líða vel. Í stuttu máli sagt þýðir þetta að draumar geta svo sannarlega ræst.

Gracelandic hefur verið draumur minn síðan ég var sex ára, þegar frænka mín gaf mér kjól sem ég dáðist að. Gracelandic er tilfinning. Ég gleymi því aldrei hvernig mér leið þegar ég klæddi mig í kjólinn. Hann gaf mér ofurkraft og ég fann það að ég var til og ég mátti vekja athygli. Ef til vill er það erfitt fyrir þau sem hafa alltaf getað keypt föt, að átta sig á því hve mikil áhrif fötin sem við klæðumst, hafa á sjálfsmynd okkar og vellíðan. Þetta er tilfinningin sem ég leitast eftir að veita viðskiptavinum mínum.“


Stökk út í óvissuna

Þegar Grace flutti til Íslands vildi hún starfa við tískugeirann, en fékk enga slíka vinnu. Hún gafst þó ekki upp á draumnum. „Ég keypti mér saumavél og efni og byrjaði að læra fatasaum á netinu. Einnig fór ég á námskeið þar sem ég lærði meðal annars að sníða. Þetta hjálpaði mér að koma flíkunum sem ég hannaði á framfæri og árið 2015 saumaði ég mína eigin línu fyrir tískusýningu,“ segir Grace.

Árið 2020 stofnaði Grace Gracelandic með lítið annað á milli handanna en ástríðu og ákafa. „Ég fór í námskeið í vefsíðugerð hjá Udemy og YouTube varð minn besti vinur. Einnig tók ég námskeið hjá Promennt og gerði markaðsrannsóknir. Ég aflaði mér upplýsinga um tískuiðnaðinn og lærði um sjálfbæra tísku og „slow fashion“. Svo tók ég námskeið í því að stofna tískufyrirtæki.“

Næsta skref var að finna framleiðanda í miðjum Covid-faraldri. „Það var ógnvekjandi að treysta einhverjum sem ég þekkti ekkert fyrir aleigunni. En ég setti allt sem ég átti í þetta og það borgaði sig.“


Mikil en gefandi vinna

„Það er mikil vinna að reka hönnunarmerki á Íslandi, sérstaklega þegar maður er í því einn og reiðir sig ekki á fjárfesta við fjármögnun. Ég ákvað það snemma, því ég vil stýra hönnuninni og fyrirtækinu sjálf. Ég vil taka þátt í að byggja upp fyrir komandi kynslóðir og brjóta upp hringrás fátæktar.

Reksturinn er ekki alltaf dans á rósum. Ég geng í öll verk sjálf, held utan um lagerinn og bókhaldið og tek viðskiptaákvarðanir. Ég skrifa líka mitt eigið blogg og vitna einnig töluvert í aðra. Ég reiði mig líka á teymi fólks sem ég vinn ýmist með eða útvista verkefnum til.

Þetta er svo ótrúlega gefandi að ég myndi ekki vilja hafa þetta öðruvísi. Ég ræð líka tíma mínum sjálf og get unnið nánast hvaðan sem er.“
Vekur athygli Gracelandic laðar að sér áberandi viðskiptavini sem klæðast flíkunum við ýmis tilefni. „Eliza Reid forsetafrú klæddist Gracelandic þegar Friðrik, krónprins Danmerkur, mætti á Bessastaði. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra gerði það einnig þegar hún hitti forseta Bandaríkjanna, Joe Biden. breska Vogue-tímaritið hefur fjallað um okkur oftar en einu sinni og vakti athygli á hönnunarmerkinu erlendis. Ég stefni á að gera Gracelandic að alþjóðlegu fatamerki og er rétt að byrja,“ segir Grace. Nánari upplýsingar um Gracelandic og vörurnar má finna á gracelandic.com.

Athugasemdir
32 views0 comments
bottom of page