Í þessari grein munum við fjalla um framleiðlsu og kaup á tímabundnum tískustraumum sem hafa slæm áhrif á umhverfi okkar – Fast fashion. Einnig ætlum við að fara yfir nokkur ráð sem hjálpa þér við að sniðganga slíka tískustrauma og færast nær sjálfbærum lífsstíl. Eins og við höfum fjallað um áður, hverfa tískustraumar á jafn skjótan máta og þeir koma og eftir situr þú með fjöldaframleidda tískuflík sem þú munt líklega aldrei nota aftur.
Við skulum byrja á að velta fyrir okkur hversvegna það er mikilvægt að hætta kaupum fyrir fullt og allt á fatnaði sem fylgir tímabundnum tískustraumum!
Miklvægi þess að sniðganga tímabundna tískustrauma
Hversvegna er mikilvægt að sniðganga kaup á fatnaði sem fylgir tímabundnum tískustraumum? Svarið við því er einfalt – Framleiðsla á fjöldaframleiddum fatnaði sem fylgir tímabundnu tískustraumum, hefur mjög slæm áhrif á umhverfi okkar og ógnar sjálfbærni hér á jörðu. Allt frá mikilli vatnsnotkun sem ýtir undir vatnsskort heimsins, losun eiturefna út í umverfið, gróðurhúsaáhrif og mannréttindabrot, þá hefur framleiðsla sem þessi í heild sinni mjög slæm áhrif á umhverfi okkar.
Einn af áhyggjuþáttunum sem fylgir framleiðslu sem þessari er losun eiturefna út í umhverfið sem veldur mengun. Ástæða þess er að í flestum tilfellum er menguðu fráfallsvatni frá fataverksmiðjunum sturtað beint í nærliggjandi ár. Vatnið er mengað af ómeðhöndluðum efnum, svo sem blýi, kvikasilfri og arsen sem eru mjög skaðleg lífríkinu í ánum og mannfólki.
Áhugaverðar staðreyndir
- Í Bangladesh eru um 22.000 tonn af menguðum úrgangi sturtað beint í árnar á hverju ári. Það segir sig sjálft að þetta raskar lífríkinu í ánum og veldur ójafnvægi í lífríkinu almennt.
- Tískuheimurinn er ábyrgur fyrir 8-10% af gróðurhúsaáhrifum í heiminum.
- Þrjár af hverjum fimm tískuflíkum enda sem landfylling eftir tæplega ársnotkun.
Leggðu þitt af mörkum
Ég er viss um að þú sért núna til í að hefja sjálfbæran lífsstíl. Hér að neðan eru nokkur hagnýt ráð sem hjálpa þér við að gera fataskápinn þinn meira sjálfbæran.
1. Forðastu að kaupa ódýrar vörur
Sama hversu freistandi tilboðin geta verið, skaltu forðast þau. Yfirleitt þegar þú sérð “gæða” vöru á lágu verði, þá er það ekki gæða vara og mögulega eitthvað sem mun bara endast þér vikuna. Mjög lág verð gefa yfirleitt til kynna að gæðin séu slök eða að margt sé ábótavant við framleiðsluna, svo sem notkun efna sem eru ekki sjálfbær eða brot á réttindum og kjörum starfsfólks.
Svo næst þegar þú sérð eitthvað sem er á óvenju lágu verði, skaltu bara ganga framhjá!
2. Kynntu þér framleiðsluna fyrir kaup
Mikilvægt er að kynna sér hvar vörur eru framleiddar. Lönd eins og Nýja Sjáland, Ástralía, lönd í Skandinavíu og Kanada eru á meðal þeirra landa sem eru hvað best upplýst um vinnusiðferði og sjálfbærni í tískuheiminum. Á meðan mörg önnur lönd eru þekkt fyrir hið gagnstæða, þá sérstaklega lönd í Asíu þar sem barnaþrælkun og önnur mannréttindabrot eru mjög algeng. Þú getur með auðveldum hætti kynnt þér hvaða lönd hvetja til sjálfbærrar framleiðslu, samanber Fairtrade og snúið kaupum þínum í þá áttina.
3. Gerðu frekari rannsóknarvinnu Þegar þú hefur ákveðið að versla eingöngu frá löndum sem tryggja sjálfbæra framleiðslu, skaltu þrengja enn frekar rannsóknarvinnu þína og skoða fyrirtækin til þess að átta þig á hvað hentar best. Þetta getur verið mjög gagnlegt þar sem þú getur fundið mikið af upplýsingum á netinu um sjálfbærnisstefnu og einkunn fyrirtækja. Einnig er hægt að fylgjast með viðurkenndum tískubloggum sem gefa reglulega út meðmæli.
Hafðu í huga að mikilvægt er að vera með gagnrýna hugsun þegar þú aflar þér slíkra upplýsinga. Mörg fyrirtæki eru dugleg við að koma ýmsum vottunum sem þau hafa á framfæri en nauðsynlegt er að skoða umfjallanir óháðra aðila.
Það getur tekið tíma að komast upp á lagið með að rannsaka tískuframleiðendur en það mun borga sig á endanum.
Að lokum:
Það er hægt að fullyrða að tímabundnir tískustraumar styðja ekki sjálfbæra framleiðslu og ógna jörðinni. Því er mikilvægt að við hjálpumst að við að snúa þessari slæmu þróun.
Ákveddu í dag að þú ætlir framvegis að taka ábyrgar ákvarðanir. Taktu eitt skref í einu og færðu þig nær sjálfbærum lífstíl – Þannig tekur þú þátt í því að halda jörðinni okkar á lífi.
Þitt framlag skiptir máli!
Комментарии